Fótbolti

Hannes varði mikilvægt víti: „Hugsaði að núna væri komið að mér“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes var ánægður enda mikilvægt víti sem hann varði.
Hannes var ánægður enda mikilvægt víti sem hann varði. vísir/getty
Hannes Þór Halldórsson varði víti er Randers gerði 1-1 jafntefli við FC Helsingør á útivelli í umspili um laust sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Leikurinn er liður í undanúrslitum um hvaða lið haldi sér uppi en Helsingør komst yfir á 29. mínútu. Þeir gátu komist í 2-0 á 85. mínútu en Hannes varði víti Nicolas Mortensen.

Bashkim Kadrii jafnaði svo metin á 87. mínútu fyrir Randers og mikilvægt útivallarmark Randers staðreynd en Randers voru einum færri frá 84. mínútu.

Liðin mætast aftur eftir viku en sigurvegarinn úr þessari viðureign mætir Lyngby og Silkeborg í úrslitarimmu um laust sæti í deildinni á næstu leiktíð.

„Þessi úrslit eru gríðarlega þýðingarmikil. Að fara með útivallarmark með okkur inn í seinni leikinn er óskastaða og að hafa náð að snúa leiknum svona við undir lokin gefur okkur mikið sjálfstraust,” sagði Hannes í tilkynningu sem var send fjölmiðlum.

„Þegar vítaspyrnan var dæmd þá hugsaði ég með mér að núna væri komið að mér. Núna þyrfti ég að verja. Að það væri enginn annar valmöguleiki. Ég var eiginlega bara alveg viss um að ég myndi verja og það varð síðan raunin.”

„Í næstu sókn jöfnum við svo leikinn. Við förum stoltir frá þessum leik og við verðum algjörlega klárir í slaginn næsta sunnudag,” sagði Hannes að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×