Þrjú Íslendingalið voru í eldlínunni í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Enginn af þeim náði að vinna sinn leik en þrír Íslendingar voru í eldlínunni og einn varamaður.
Kristján Flóki Finnbogason spilaði allan leikinn fyrir Start sem tapaði 3-0 á útivelli gegn Odd. Aron Sigurðarson kom inná sem varamaður á 73. mínútu.
Eftir að hafa unnið fyrsta leikinn hefur Start einungis náð í eitt stig í síðustu sjö leikjum. Liðið situr á botninum með fjögur stig.
Annað Íslendingalið er einnig í botnbaráttunni. Emil Pálsson var ónotaður varamaður í 1-0 tapi gegn Lilleström en Sandefjord er í næst neðsta sæti með fimm stig.
Samúel Kári Friðjónsson spilaði allan leikinn fyrir Vålerenga sem gerði 2-2 jafntefli við FK Haugesund á heimavelli. Vålerenga er í sjötta sætinu með tólf stig.
