Íslenski boltinn

Sveinn Aron pælir ekki í pressunni sem fylgir því að vera Guðjohnsen

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen fór frábærlega af stað í Pepsi-deildinni.
Sveinn Aron Guðjohnsen fór frábærlega af stað í Pepsi-deildinni. vísir/eyþór
Sveinn Aron Guðjohnsen, framherji Breiðabliks í Pepsi-deild karla í fótbolta, fór virkilega vel af stað í deildinni um síðustu helgi og skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Blika gegn Eyjamönnum á Kópavogsvelli.

Sveinn Aron fékk fá tækifæri með Val á síðustu leiktíð sem varð til þess að hann skipti yfir í Breiðablik en hann komst aldrei í gang síðasta sumar. Hann raðaði inn mörkum í aðdraganda Pepsi-deildarinnar og fékk svo þetta fljúgandi start.

Þessi ungi framherji er fullmeðvitaður um eftirnafnið sem hann ber, það sögufrægasta í íslenskri fótboltasögu, en hann segist ekki finna fyrir aukinni pressu vegna eftirnafnsins og pælir ekkert í því.

„Ég finn ekki neina aukna pressu, ég þekki ekkert annað. Ég er ekkert að pæla í þessu, ég hef lært það frá því ég var yngri að hlusta ekkert á svona tal,“ segir Sveinn Aron í viðtali við 433.is.

„Þegar fólk er eitthvað að blaðra þá fer það bara inn um eyrað og út um hitt. Ég er ekkert að taka þá hluti inn á mig, ef fólk er að segja eitthvað slæmt.“

„Ég hef aldrei pælt neitt í því að það sé einhver pressa sem fylgir Guðjohnsen-nafninu en ég get alveg skilið þegar fólk býst við miklu. Þessi umræða hefur aldrei pirrað mig, það er meira fólkið í kringum mig sem pælir í þessum hlutum,“ segir Sveinn Aron Guðjohnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×