Íslenski boltinn

Ævar Ingi: Ég náði ekki að anda

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ævar Ingi þarf að taka því rólega næstu daga.
Ævar Ingi þarf að taka því rólega næstu daga. vísir/vilhelm
Það fór um áhorfendur í Garðabæ í gær er Stjörnumaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson meiddist illa í bikarleiknum gegn Fylki. Hann fékk mikið höfuðhögg og lá eftir óvígur. Óttast var að hann hefði gleypt tungu sína.

Hann lá á grasinu og hristist allur til. Verulega óhugnaleg sjón. Eftir leik var leikmaðurinn svo fluttur á sjúkrahús.

„Ég hef verið betri,“ sagði Ævar Ingi hálflaslegur er Vísir heyrði í honum í morgun.

„Ég hleyp á Fylkismanninn og fæ virkilega þungt höfuðhögg. Svo fæ ég krampa og lendi í erfiðleikum með að anda. Ég dett aðeins út líka. Fljótlega eftir það fór ég að taka við mér.“

Akureyringurinn segist ekki vita hvort hann hafi gleypt tunguna.

„Ég held að það hafi ekki gerst en ég náði ekki að anda. Ég veit ekki út af hverju það var. Þetta var virkilega óþægileg lífsreynsla sem ég vona að ég lendi aldrei aftur í. Ég get ekki horft á myndbandið af þessu. Þetta var það óþægilegt fyrir mig.“

Kantmaðurinn segist vera mikið eftir sig í dag og liggur fyrir heima hjá sér.

„Ég er ekki góður í hausnum og allur líkaminn er lemstraður. Ég finn til í bakinu, maganum og víðar. Þeir segja að ég hafi fengið heilahristing en ég er með gott teymi í kringum mig og það er vel hugsað um mig. Nú þarf ég að taka því rólega. Það þarf að passa hausinn. Hann er mikilvægur.“


Tengdar fréttir

Ævar Ingi fluttur á sjúkrahús

Óhugnalegt atvik á Stjörnuvellinum í dag. Ævar Ingi Jóhannesson gleypti líklega tunguna eftir þungt höfuðhögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×