Íslenski boltinn

Ágúst Gylfa: Viljum Guðjón Pétur og erum að skoða fleiri möguleika

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ágúst Gylfason leynir ekki aðdáun sinni á Guðjóni Pétri.
Ágúst Gylfason leynir ekki aðdáun sinni á Guðjóni Pétri. vísir/anton
Breiðablik er eitt af þeim liðum sem vill fá Guðjón Pétur Lýðsson, miðjumann Vals, í sínar raðir en hann er að öllum líkindum á förum frá Hlíðarendafélaginu fyrir lok félagaskiptaglugga en honum verður lokað í kvöld.

Blikar eru á höttunum eftir sóknarsinnuðum leikmanni og Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, fer ekkert í felur með að Guðjón er leikmaður sem að hann vill sjá í grænu.

„Ég sagði það í Pepsi-mörkunum í gær og segi það aftur núna að Guðjón er leikmaður sem við viljum fá í Kópavoginn. Þetta er frábær leikmaður og frábær drengur,“ segir Ágúst, en eru Blikar farnir í viðræður við Guðjón?

„Það er nú ekki mikið eftir af þessum glugga þannig hlutirnir þurfa að gerast hratt,“ svarar Ágúst og hlær við en lífið leikur við hann og Blikana þessa dagana sem eru taplausir á topp deildarinnar.

Blikar eru búnir að vera að leita að framherja í nokkrar vikur og þá langar að fá einn slíkan ef Guðjón Pétur kemur ekki fyrir lok félagaskiptagluggans.

„Við erum að skoða alla möguleika. Við erum að skoða möguleika í Pepsi-deildinni, Inkasso-deildinni og erlendist. Þetta er frábær dagur og bara um að gera að vera með,“ segir Ágúst Gylfason.


Tengdar fréttir

Guðjón Pétur vill yfirgefa Val

Guðjón Pétur Lýðsson hefur beðið um að yfirgefa herbúðir Íslandsmeistara Vals í Pepsi deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×