Íslenski boltinn

Hetja Fylkis fékk Prince Polo frá aðdáanda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil í leiknum í kvöld.
Emil í leiknum í kvöld. Vísir/Bára
Fylkir lenti 2-0 undir gegn Íslandsmeisturum Vals í Pepsi-deild karla í kvöld en náðu að koma til baka, jafna leikinn og tryggja sér annað stigið.

Emil Ásmundsson átti góðan leik fyrir gestina úr Árbænum og skoraði jöfnunarmarkið skömmu fyrir leikslok. Hann var hæstánægður í viðtali eftir leik og maulaði á Prince Polo.

„Það var glaður aðdáandi í stúkunni sem gaf mér þetta. Ég var svo svangur að ég ákvað að byrja bara á því strax,“ sagði hann í léttum dúr.

„Þetta var frábært í kvöld. Við sýndum karakter. Það eru bara strákar í liðinu sem gefa 100% í leikinn fram á lokaflaut. Það skilaði stigi á erfiðasta útivelli landsins,“ sagði Emil um niðurstöðu kvöldsins.

Mark Emils kom eftir að boltinn breytti um stefnu á varnarmanni en hann var samt sannfærður um að boltinn hefði hvort sem er endað í netinu. „Ef hann hefði ekki farið í manninn þá hefði hann farið í sammann og inn,“ sagði Emil ánægður.

Fylkismenn fengu færi til að skora í leiknum í kvöld en nýttu þau ekki fyrr en í lokin.

„Kannski að stressið hafi tekið yfir. Við vorum líka rændir vítaspyrnu fannst mér. Ef allt hefði gengið upp í kvöld hefðum við tekið þrjú stig,“ sagði Emil sem segir að Fylkismenn ætli sér að stefna hátt í sumar.

„Við settum okkur markmið fyrir sumarið og ætlum að berjast um titla eins og önnur lið í toppbaráttunni. Við munum ekkert gefa eftir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×