Íslenski boltinn

Óli Palli: Skrítið að sjá FH spila svona fótbolta

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Ólafur Páll Snorrason
Ólafur Páll Snorrason vísir
Þjálfari Fjölnis, Ólafur Páll Snorrason, var ekki sáttur í leikslok í Egilshöll í dag þar sem hans menn töpuðu fyrir FH 2-3. Pétur Viðarsson skoraði sigurmarkið á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

„Já, ég er hundfúll að tapa leiknum á endanum. Svona er fótboltinn,“ sagði hann eftir leikinn.

Hann var ekki sammála því að Fjölnir hefði verið slakari aðilinn í seinni hálfleik, en FH skoraði tvö mörk með stuttu millibili í byrjun hans eftir að Birnir Snær Ingason kom Fjölni yfir í fyrri hálfleik.

„Það var bara 10 mínútna kafli þar sem við misstum smá einbeitingu og bárum allt of mikla virðingu fyrir þeim, féllum of langt niður. Það varð okkur að falli, 10 mínútna kafli í byrjun seinni hálfleiks.“

„Við vorum að reyna að spila fótbolta. Mér finnst svolítið sérstakt að sjá FH liðið spila fótbolta eins og þeir gerðu í dag, það var eiginlega bara ein leið og það var langt.“

„Ég veit ekki hvert planið var, en mér fannst vera mikið um langa bolta.“

Fjölnir er enn án sigurs í deildinni en Ólafur var ekki að kippa sér of mikið upp við það.

„Ég hef engar áhyggjur af því þó við séum að leita að fyrsta sigrinum, það eru þrír leikir búnir af mótinu,“ sagði Ólafur Páll Snorrason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×