Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi: Mun alltaf sýna FH virðingu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þórarinn Ingi Valdimarsson, 28 ára gamall Eyjamaður, gekk í gær í raðir Stjörnunnar frá FH en Hafnafjarðarliðið seldi hann til Garðbæinga.

Þórarinn var þrjú ár í FH og vann tvo Íslandsmeistaratitla með félaginu en hann virtist ekki líklegur til þess að spila mikið undir stjórn Ólafs Kristjánssonar hjá FH.

„Ég var ekki að spila en það vilja allir fá að spila. Eftir samtal við mína menn hinum megin var það ákveðið að ég mætti líta í kringum mig,“ sagði Þórarinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Ég átti þrjú góð ár í FH og vann tvo titla. Ég á því mikið að þakka á mínum fótboltaferli og mun alltaf sýna FH virðingu þó stutt sé á milli liðanna og allt það.“

Stjörnumenn eru í miklum meiðslavandræðum þessa dagana og hafa aðeins innbyrt eitt stig í fyrstu tveimur umferðum Pepsi-deildarinnar eftir tvo heimaleiki.

„Eftir að tala við Stjörnuna í gær tel ég þetta fullkomið skref fyrir mig, sérstaklega að hjálpa þeim í þessum meiðslum sem liðið glímir við,“ sagði Þórarinn.

„Ég kem með pínu kraft sem kannski hefur vantað til þess að við förum að ná í þessi stig sem við teljum að eiga heima hér í Garðabænum,“ sagði Þórarinn Ingi Valdimarsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×