Innlent

Framsókn á Ísafirði ræðir meirihluta með Sjálfstæðisflokki

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. vísir/einar
Þrjú framboð voru í boði í Ísafjarðarbæ Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Í-listi sem var einn í meirihluta á síðasta kjörtímabili en hann er myndaður af fólki úr ólíkum áttum en þó meira á félagshyggju vængnum. Gísli Halldór Halldórsson var bæjarstjóri Í-listans.

Í-listinn tapaði hins vegar fylgi í kosningunum á laugardag, fékk fjóra kjörna og missti meirihlutann. En níu sitja í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá og Framsóknarflokkurinn tvo og því ræðst næsti meirihluti af því með hverjum framsóknarmenn vilja vinna.

Marzellíus Sveinbjörnsson oddviti framsóknarmanna í bænum segir að ákveðið hafi verið í morgun að taka upp viðræður við Sjálfstæðisflokkinn.

„Já við ætlum að hefja viðræður við D-lista Sjálfstæðisflokks. Það var ákveðið á fundi hjá okkur að fara þá leiðina.”

Er einhver ein ástæða fyrir að þið ákveðið það í stað þess að ræða við Í-listann?

„Það er ekki mikill málefnaágreiningur á milli þessara lista en þetta var bara niðurstaðan. Þetta er mjög álíka og þess vegna tókum við þennan tíma sem við erum búin að taka. Vegna þess að það er ekki margt sem greinir á milli,” segir Marzellíus.

Hins vegar telji hann að það hafi verið ákall um breytingar í kosningunum um helgina. Marzellíus segir meirihlutaviðræðurnar ekki þurfa að taka langan tíma.

„Þær gætu orðið stuttar. En við ætlum að halda fund í kvöld og maður getur metið stöðuna betur eftir fyrsta fundinn,” segir Marzellíus Sveinbjörnsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×