Íslenski boltinn

Ekkert lið hefur byrjað betur en Grindavík undanfarin tvö sumur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson skoraði sigurmarkið gegn Víkingum og fyrra mark Grindavíkur gegn Val.
Aron Jóhannsson skoraði sigurmarkið gegn Víkingum og fyrra mark Grindavíkur gegn Val. Vísir/Daníel
Strákarnir hans Óla Stefáns Flóventssonar eru annað árið í röð að byrja Pepsi-deild karla í fótbolta af miklum krafti en líkt og í fyrra er Grindavíkurliðið með jafnmörg stig og topplið deildarinnar eftir fyrstu sex umferðirnar.

Grindavík var með 13 stig í fyrstu sex umferðunum í fyrra eins og lið Stjörnunnar og Vals.

Í ár hafa Grindvíkingar náð í 11 stig í fyrstu sex umferðunum eða jafnmörg stig og Breiðablik og FH en þessi lið eru með jafnmörg stig í 1. til 3. sæti deildarinnar.

Ef við leggjum saman fyrstu sex umferðirnar í Pepsi-deildinni undanfarin tvö sumur þá hefur ekkert lið í deildinni gert betur en Grindavík.

Grindavíkurliðið hefur unnið 7 af þessum 12 leikjum og aðeins tapað tveimur leikjum í 1. til 6. umferð 2017-18. Markatala liðsins er 17-12 eða +5.

Traustur varnarleikur á mikið í þessum árangri Grindavíkurliðsins enda er liðið aðeins í 6. sæti yfir flest mörk skoruð í þessum umferðum. Ekkert þeirra liða sem hafa spilað bæði tímabilin í deildinni hefur aftur á móti fengið á sig færri mörk.

Eina tapið í sumar kom á móti FH og eina tapið í fyrra kom á móti Víkingi úr Ólafsvík.

Grindvíkingar hafa náð tveimur stigum meira í þessum umferðum en Valsmenn og fjórum stigum meira en Stjarnan, FH og Breiðablik.

Flest stig í 1. til 6. umferð Pepsi-deildar karla 2017-2018:

1. Grindavík 24 stig (+5)

2. Valur 22 stig (+6)

3. Stjarnan 20 stig (+9)

4. FH 20 stig (+6)

5. Breiðablik 20 stig (+3)

6. KA 16 stig (+3)

7. KR 16 stig (+1)

8. Fjölnir 16 stig (-2)

9. Víkingur R. 13 stig (-2)

10. ÍBV 12 stig (-9)

ÍA (3 stig), Víkingur Ó. (3 stig), Fylkir (8 stig) og Keflavík (2 stig) spiluðu bara annað af þessum tveimur tímabilum í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×