Lífið

Bjarni dúxaði með 9,9 í meðaleinkunn og er á leiðinni í Harvard

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarni Ármann fékk fjölda verðlauna við útskriftina á laugardaginn.
Bjarni Ármann fékk fjölda verðlauna við útskriftina á laugardaginn.
Bjarni Ármann Atlason, stúdent úr Verslunarskóla Íslands, dúxaði í skólanum og gerði gott betur en hann var með 9,9 í meðaleinkunn.

„Þetta er ein og ein nía frá því á fyrsta árinu, sem klikkaði,“ sagði Bjarni Ármann léttur í samtali við Heimi Karlsson og Gulla Helga í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ég myndi halda að þetta væru 40 til 50 áfangar og ég fékk þrjár níur á fyrsta árinu,“ segir Bjarni og bætir því við að hann hafi ekki lokað sig af og lært alla skólagönguna til að ná svona árangri.

„Það er rosalega öflugt félagslíf hér í Versló og maður reyni að taka eins mikið þátt í því og maður gat. Ég var til að mynda formaður Vísindafélagsins og við vorum að gefa út okkar tímarit. Svo var maður á fullu í íþróttum og öðru.“

Bjarni segist vera mjög góður í því að lesa yfir texta og muna síðan innihaldið.

„Ef maður skilur það sem maður er að lesa, þá man maður það ansi vel. Svo hef ég verið mikið í stærðfræði og eðlisfræðinni og það hefur verið aðeins erfiðara fyrir mig.“

Bjarni fékk boð frá þremur af bestu háskólum Bandaríkjanna og höfðu forsvarsmenn Harvard, MIT og Columbia samband við hann um mögulega skólagöngu.

„Ég fór út í apríl og skoðaði þessa skóla. Allir þrír skólarnir voru ótrúlega flottir og ég var meira en til í það að eyða næstu fjórum árum í hverjum og einum. Ég er búinn að velja og fer til Harvard í haust og það er ansi spennandi,“ segir Bjarni.

Hér að neðan má heyra viðtalið við Bjarna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.