Innlent

Kjörsóknin langminnst í Reykjanesbæ

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kjörsókn í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík var 67 prósent eða rúmlega fjórum prósentustigum meiri en í kosningunum fyrir fjórum árum. Kjörsókn var víða á bilinu 60-75 prósent en hún var langminnst í Reykjanesbæ eða 57 prósent.

90.135 manns voru á kjörskrá í Reykjavík en 60.422 skiluðu sér á kjörstað. Það er kjörsókn upp á 67 prósent. Þetta er nokkuð betri kjörsókn en í síðustu borgarstjórnarskosningum þegar kjörsóknin var 62,9 prósent. 

Þetta kann að virðast ágæt kjörsókn þegat tölfræðin er borin saman við tölur úr síðustu kosningum. Það hlýtur engu að síður að vera umhugsunarefni að þrjátíu þúsund Reykvíkingar ákveða að nýta ekki lýðræðislegan rétt sinn og sitja heima í stað þess að hafa áhrif á hvernig sveitarfélaginu er stjórnað.

Í Kópavogi var kjörsóknin 63,4 prósent eða rúmlega 3 prósentustigum meiri kjörsókn en í síðustu kosningum. 

Áhugi á pólitík á Seltjarnarnesi hefur aukist frá síðustu kosningum eða flokkarnir voru duglegri að smala á kjörstað að þessu sinni því 75 prósent Seltirninga skiluðu sér á kjörstað sem er aukning um tp 7 prósentustig frá kosningunum 2014. 

Í Garðabæ, öðru sterku vígi Sjálfstæðisflokksins, var kjörsóknin svipuð og síðast eða 67 prósent en 66 prósent í kosningunum 2014.  Á Akureyri var kjörsóknin 66,3 prósent sem er svipað og í síðustu kosningum þegar 67 prósent atvkæðisbærra bæjarbúa skiluðu sér á kjörstað. 

Í Hafnarfirði dróst kjörsókn saman um eitt og hálft prósentustig en aðeins 58 prósent Hafnfirðinga nýttu atkvæðisréttinn að þessu sinni. Það er næstlakasta kjörsókn í sveitarfélagi á landinu öllu. 

Aðeins í Reykjanesbæ var lakari kjörsókn. Þar skiluðu sér aðeins 57 prósent á kjörstað sem er 12 prósentustigum minna en í kosningunum 2014. Það verður væntanlega verkefni fyrir embættismenn íReykjanesbæ að rannsaka hvað gerðist á árinu 2018 sem varð til þess að jafn fáir ákváðu að nýta lýðræðislegan rétt sinn og kjósa að þessu sinni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×