Innlent

Konur 65 prósent borgarfulltrúa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Oddvitar flokkanna sem náðu inn manni í borgarstjórn eru flestir konur. Á mynd sjást oddvitarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir sem allar voru kosnar inn í borgarstjórn.
Oddvitar flokkanna sem náðu inn manni í borgarstjórn eru flestir konur. Á mynd sjást oddvitarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir sem allar voru kosnar inn í borgarstjórn. Vísir/Vilhelm
Fimmtán af tuttugu og þremur borgarfulltrúum í Reykjavík, eða 65,2%, eru konur. Hlutfall kvenna eykst töluvert frá því í síðustu kosningum en síðast voru konur fleiri en karlar í borgarstjórn árið 2013 og þar áður árið 1994.

Sjá einnig: Rýnt í úrslit borgarstjórnarkosninga: Viðreisn í lykilstöðu

Fjórir af átta borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins eru konur en þær Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðarfóttir, Marta Guðjónsdóttir og Katrín Atladóttir voru allar kosnar inn í borgarstjórn. Þá eru jafnmargar konur úr Samfylkingunni, eða fjórar: Heiða Björg Hilmisdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf og Guðrún Ögmundsdóttir.

Allir fulltrúar flokkanna sem náðu einum manni inn í borgarstjórn eru konur en það eru þær Vigdís Hauksdóttir úr Miðflokknum, Sanna Magdalena Mörtudóttur úr Sósíalistaflokknum, Kolbrún Baldursdóttir úr Flokki fólksins og Líf Magneudóttir úr Vinstri grænum.

Báðir fulltrúar Pírata í borgarstjórn eru konur, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, og þá er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir önnur af tveimur fulltrúum Viðreisnar.

Sjálfstæðiskonurnar sem komust inn í borgarstjórn, Marta Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og Valgerður Sigurðardóttir, sjást hér fagna góðum árangri ásamt Sjálfstæðiskörlunum Eyþóri Arnalds, Agli Þór Jónssyni, Erni Þórðarsyni og Birni Gíslasyni.Vísir/Vilhelm
Þetta er töluverð aukning frá því í sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 en þá voru sjö af fimmtán kjörnum borgarfulltrúum konur eða 46,7%. Árið 2013 varð hlutfall kvenna í borgarstjórn það hæsta í 19 ár þegar Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók við af Gísla Marteini Baldurssyni. Þá höfðu konur aðeins einu sinni áður verið fleiri en karlar í borgarstjórn, árið 1994.

Hlutfall kvenna er mismunandi eftir sveitarfélögum en í Hafnarfirði eru fimm af ellefu bæjarfulltrúum konur, í Mosfellsbæ eru konur tvær af níu fulltrúum, á Seltjarnarnesi eru þær þrjár af sjö, í Reykjanesbæ fimm af ellefu og á Akureyri sex af ellefu.


Tengdar fréttir

Lokatölur í Reykjavík: Meirihlutinn er fallinn

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í Reykjavík með átta fulltrúa af tuttugu og þremur. Samfylkingin er næststærst með sjö og Viðreisn fær tvo fulltrúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×