Sjálfstæðisflokkurinn er langstærstur í Garðabæ og bætir við sig einum bæjarfulltrúa frá því á síðasta kjörtímabili. Flokkurinn er þannig með átta fulltrúa af ellefu mögulegum og hreinan meirihluta.
Hinir þrír bæjarfulltrúarnir falla í skaut Garðabæjarlistans, sem bauð í fyrsta sinn fram nú. Bæði Samfylkingin og Listi fólksins áttu einn fulltrúa í bæjarstjórn á kjörtímabilinu sem leið, en þeir flokkar buðu ekki fram að þessu sinni.
Það sama á við um Bjarta framtíð, sem náði tveimur mönnum inn í síðustu kosningum og myndaði meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn buðu báðir fram í Garðabæ en náðu engum manni inn.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut alls 62 prósent atkvæða, Garðarbæjarlistinn 28,1 prósent, Miðflokkurinn 6,8 prósent og Framsóknarflokkurinn 3,1 prósent. Kjörsókn var 67 prósent.
Ný bæjarstjórn lítur svona út:
1 D Áslaug Hulda Jónsdóttir
2 D Sigríður Hulda Jónsdóttir
3 G Sara Dögg Svanhildardóttir
4 D Sigurður Guðmundsson
5 D Gunnar Valur Gíslason
6 G Ingvar Arnarson
7 D Jóna Sæmundsdóttir
8 D Almar Guðmundsson
9 G Harpa Þorsteinsdóttir
10 D Björg Fenger
11 D Gunnar Einarsson
Innlent