Innlent

Loka­tölur úr Eyjum: Meiri­hlutinn fallinn og Elliði dottinn út

Bjarki Ármannsson skrifar
Hér má sjá bæjarfulltrúa Vestmannaeyja á komandi kjörtímabili.
Hér má sjá bæjarfulltrúa Vestmannaeyja á komandi kjörtímabili. vísir/gvendur
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað meirihluta sínum í Vestmannaeyjum og fær aðeins þrjá menn kjörna af sjö. Elliði Vignisson, sem hefur gegnt embætti bæjarstjóra í Eyjum frá árinu 2006, var í fimmta sæti listans og nær ekki kjöri.

Fyrir Heimaey, klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, nær sömuleiðis þremur mönnum inn í bæjarstjórn og Eyjalistinn missir einn mann og endar með tvo.

Þetta er í fyrsta sinn í tólf ár sem Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki hreinum meirihluta í Vestmannaeyjum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað meirihluta sínum í Vestmannaeyjum og fær aðeins þrjá menn kjörna af sjö.vísir/hjalti
Sjálfstæðismenn unnu stórsigur í Vestmannaeyjum í síðustu sveitastjórnarkosningum undir stjórn Elliða, hlaut rúmlega 73 prósent atkvæða og fimm fulltrúa í bæjarstjórn á móti tveimur fulltrúum Eyjalistans.

Sú ákvörðun Sjálfstæðismanna að stilla upp lista en fara ekki í prófkjör í flokknum fyrir kosningar olli miklum titringi í flokknum og endaði með klofningsframboði H-listans, fyrir Heimaey.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut alls 45,4 prósent atkvæða, Fyrir Heimaey 34,2 prósent og Eyjalistinn 20,3 prósent.

Kjörsókn var áberandi góð í Vestmannaeyjum, rúmlega 83 prósent.

Ný bæjarstjórn lítur svona út:

1 D Hildur Sólveig Sigurðardóttir     

2 H Íris Róbertsdóttir            

3 D Helga Kristín Kolbeins

4 E Njáll Ragnarsson

5 H Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

6 D Trausti Hjaltason

7 H Elís Jónsson      


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×