Innlent

Óvíst hvort Lóa tæki Dag eða Eyþór með í sumarbústað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórdís Lóa og félagar í Viðreisn mælast með tvo menn inni í borginni.
Þórdís Lóa og félagar í Viðreisn mælast með tvo menn inni í borginni. Vísir/Ernir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir ekki tímabært að svara spurningunni með hvorum flokknum, Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu, Viðreisn kysi að mynda meirihluta.

Að loknum fyrstu tölum er Viðreisn í lykilhlutverki í borginni með tvo menn. Tvo lykilmenn.

„Við erum í góðum málum og ótrúlega ánægð með þetta. En þetta eru fyrstu tölur og við erum meðvituð um það.“

Hún minnir á að Viðreisn sé að bjóða fram í fyrsta skipti í borginni, nýtt afl á góðum grunni. Hún sé ekki síður ánægð með viðtökur flokksins á landsvísu.

„Það er líka afar skemmtilegt.“

Eyþór Arnalds fær átta fulltrúa í borginni en Dagur sjö miðað við fyrstu tölur.Vísir/Vilhelm
En hvort yrði það Samfylking eða Sjálfstæðisflokkur?

„Við getum ekkert sagt til um það núna.“

En ef Eyþór Arnalds og Dagur B. Eggertsson biðu henni í sumarbústað yfir helgi. Með hverjum myndi hún fara?

„Frábær spurning! Eigum við ekki að segja, hverjum ætli ég bjóði?“ sagði Þórdís Lóa en vildi ekki svara þeirri spurningu heldur að svo stöddu þegar blaðamaður tók hana á orðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi átta fulltrúa, Samfylkingin sjö, Viðreisn tvo og Vinstri græn tvo. Flokkur fólksins, Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn fengju einn hver.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×