Íslenski boltinn

HK á toppinn │ Leiknir hafði betur í baráttunni um Breiðholt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson er þjálfari HK og honum til aðstoðar er Viktor Bjarki Arnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson er þjálfari HK og honum til aðstoðar er Viktor Bjarki Arnarsson. vísir/hk
HK er komið á toppinn í Inkasso-deild karla eftir 3-1 sigur á Þrótti á útivelli í kvöld. Leiknir hafði svo betur í grannaslagnum gegn ÍR, eining 3-1.

Bjarni Gunnarsson kom HK yfir á 19. mínútu í Laugardalnum og í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði lánsmaðurinn frá Stjörnunni, Kári Pétursson, forystu Kópavogsliðsins.

Á 57. mínútu minnkuðu þó heimamenn muninn. Aron Þórður Albertsson var þar á ferðinni en tveimur mínútum síðar gerði Ásgeir Marteinsson þriðja mark HK og gerði þar með út um leikinn.

HK er á toppnum, að minnsta kosti þangað til á morgun, en liðið er með tíu stig eftir þrjá sigra og eitt jafntefli í fyrstu fjórum leikjunum. Þróttur er með fjögur stig í áttunda sætinu.

Leiknir nældi í sín fyrstu stig er liðið vann 3-1 sigur á ÍR í baráttunni um Breiðholt. Sævar Atli Magnússon, Anton Freyr Ársælsson og Sólon Breki Leifsson komu Leikni í 3-0 áður en Björgvin Pétursson minnkaði muninn fyrir ÍR síðla leiks.

Breiðholtsliðin eru því bæði með þrjú stig eftir fjóra leiki en liðin sitja í níunda og tíunda sæti deildarinnar. Leiknir er sæti ofar vegna betri markahlutfalls.

Úrslit og markaskorarar eru fengin frá urslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×