Íslenski boltinn

Haukur Páll: Eina rétta í stöðunni var að skipta mér út af | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Ég er bara nokkuð brattur í dag,“ segir Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í Pepsi-deild karla í fótbolta, við Vísi í morgunsárið.

Haukur Páll þurfti að fara af velli í gær í 2-1 tapi meistaranna á móti Grindavík eftir að fá höfuðhögg á 27. mínútu en hann hafði fengið annað höfuðhögg í upphitun þegar að Einar Karl Ingvarsson sparkaði boltanum í höfuð fyrirliðans.

Sjá einnig:Valsmenn á pari við titilvörnina skelfilegu fyrir áratug

„Ég fékk boltann óvænt í höfuðið í upphitun en leið samt ágætlega eftir það. Einar sjúkraþjálfari tók próf á mér og ég flaug í gegnum þau og allt í góðu,“ segir Haukur Páll sem steinlá svo eftir einvígi við Kristian Jajalo, markvörð Grindavíkur.

„Það var annað höfuðhöggið á skömmum tíma og þá var lítið hægt að gera. Mér svimaði ekki beint en ég fann fyrir óþægilegri tilfinningu þegar að ég reisti mig við. Það eina rétta í stöðunni var að fá skiptingu.“

Haukur fór ekki á sjúkrahús heldur kláraði hann að horfa á leikinn af bekknum, tók rútuna með Valsliðinu til Reykjavíkur og stökk í mjúkan faðm fjölskyldunnar.

„Ég var með smá hausverk í gærkvöldi en ég er finn í dag. Einar sjúkraþjálfari hafði aftur samband í morgun og svo hitti ég hann seinna í dag. Ég held að þetta verði allt í lagi. Mér líður vel núna. Við biðjum ekki um meira í bili,“ segir Haukur sem telur að hann verði klár í slaginn gegn Breiðabliki á sunnudagskvöldið.

„Ég tek því rólega í dag og skokka svo aðeins á morgun og prófa að æfa. Ef ég kemst í gegnum það ætti ég að geta spilað en ég geri allt í samráði við sjúkraþjálfarann og lækni Valsliðsins. Ef þeir gefa mér grænt reikna ég með að spila á móti Blikum,“ segir Haukur Páll Sigurðsson.

Höfuðhöggin tvö sem Haukur Páll varð fyrir má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×