Erlent

Sádí-Arabíu boðið að taka þátt í Eurovision

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Netta tilkynnti á sviðinu í Lissabon að keppnin yrði haldin í Jerúsalem að ári.
Netta tilkynnti á sviðinu í Lissabon að keppnin yrði haldin í Jerúsalem að ári. VÍSIR/AP
Ísraelsk stjórnvöld hafa formlega boðið Sádí-Arabíu og öðrum Persaflóaríkjum að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á næsta ári.

Framlag Ísraela bar sigur úr býtum í keppninni í ár og tilkynnti söngkonan Netta Barzilai á sviðinu í Lissabon að keppnin færi fram í Jerúsalem að ári.

Samskiptaráðherra Ísraels, Ayoub Kara, sagði í samtali við ísraelska fjölmiðla á mánudag að hann hafi sent formlegt boð til stjórnvalda í ríkjum Arabíuskagans um þátttöku í Eurovision árið 2019.



Ríki í Austurlöndum nær hafa áður lýst yfir áhuga á þátttöku í keppninni. Það gerði til að mynda Katar árið 2009 og Líbanon árið 2005. Síðarnefnda ríkið var meira að segja búið að velja sér fulltrúa en var neytt til að draga sig úr keppninni eftir að hafa neitað að sýna ísraelska framlagið.

Stærsta þátttökuskilyrðið sem ríki þurfa að uppfylla til að mega taka þátt í Eurovision er að vera meðlimur í Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva. Sádí-Arabía og önnur ríki Arabíuskagans uppfylla hins vegar ekki þau skilyrði.

Sjá einnig: Stjórn RÚV ræðir áskorun vegna Ísraels

Tugþúsundir Íslendinga hafa hvatt Ríkisútvarpið til að sniðganga keppnina á næsta ári. Vilja þeir með því mótmæla framgöngu ísraelskra stjórnvalda gegn Palestínumönnum.

Ætla má að boð Ísraelsmanna kunni að tengjast ólgunni vegna opnun sendiráðs Bandaríkjamanna í Jerúsalem. Borgin er heilög í augum þriggja trúarbragða og þótti öðrum ríkjum fyrir botni Miðjarðarhafs sendiráðsopnunin vera staðfesting á yfirráðum Ísraelsmanna yfir Jerúsalem. 


Tengdar fréttir

Stjórn RÚV ræðir áskorun vegna Ísraels

Áskoranir tugþúsunda um sniðgöngu Eurovision til umræðu í stjórn RÚV. Ekki liggur fyrir á hvers borði ákvörðunin endar. Dagskrárstjóri RÚV segir að haft verði samráð við norrænu stöðvarnar áður en ákvörðun verður tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×