Íslenski boltinn

Hallgrímur: Í raun bara heimskulegt að spila á vellinum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hallgrímur Jónasson gekk í raðir KA fyrir leiktíðina
Hallgrímur Jónasson gekk í raðir KA fyrir leiktíðina mynd/skjáskot KA TV
Hallgrímur Jónasson átti góðan leik í vörn KA þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Keflavík í 5.umferð Pepsi-deildar karla á Akureyrarvelli í kvöld.



Akureyrarvöllur kemur afar illa undan vetri og hafði ástand vallarins klárlega áhrif á spilamennsku beggja liða.

„Aðstæðurnar eru bara ömurlegar. Það er erfitt að spila fótbolta á vellinum og í raun bara heimskulegt. Alltof mikil áhætta. Við reyndum að einbeita okkur að því sem við getum haft áhrif á og mér fannst við spila vel í dag. Ef sigurinn hefði dottið öðrum hvorum megin þá hefði hann komið til okkar. Við náðum því miður ekki að skora,“ sagði Hallgrímur í leikslok.

„Aðstæðurnar er bara það slæmar að það er ekki neitt voðalega skemmtilegt að hvorki horfa á leikinn eða spila hann á meðan völlurinn er svona,“ sagði Hallgrímur ennfremur.

Hallgrímur lék með Keflavík áður en hann hélt í atvinnumennsku og varð meðal annars bikarmeistari með Suðurnesjamönnum. Hann kveðst þó ekki hafa fundið fyrir blendnum tilfinningum í leiknum.

„Það voru engar blendnar tilfinningar. Ég spilaði við þá um daginn á Spáni og ég vildi bara vinna leikinn. Ég á marga góða vini frá Keflavík en ég var bara að hugsa um að vinna leikinn.“

Þrátt fyrir að aðstæður hafi gert KA-mönnum erfitt um vik að spila boltanum á milli sín telur Hallgrímur að liðið geti tekið margt jákvætt úr leiknum.


„Við getum klárlega byggt á þessari frammistöðu. Við höfum átt kaflaskipta leiki en mér fannst við stöðugir í dag. Bæði fyrri og seinni hálfleikur. Við héldum hreinu og það er skap í mönnum sem er frábært. Menn vildu virkilega vinna.“

Aron Elí Gíslason kom inn í lið KA-manna á síðustu stundu þar sem Cristian Martinez meiddist í upphitun. Hallgrímur hrósaði markverðinum unga í hástert en Aron var að leika sinn fyrsta alvöru mótsleik í meistaraflokki.

„Það var frábært að spila með Aroni. Hann á hrós skilið og stóð sig vel. Hann kom inn með sjálfstraust, var duglegur að tala og það gekk vel. Það er frábært fyrir hann að fá leik í svona háum gæðaflokki og standa sig vel,“ sagði Hallgrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×