Sport

Favre fór þrisvar sinnum í meðferð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Favre í leik með Packers.
Favre í leik með Packers. vísir/getty
Leikstjórnandinn goðsagnakenndi, Brett Favre, hefur greint frá því að hann fór þrisvar á ferlinum í meðferð. Bæði vegna þess að hann var fullmikið fyrir sopann og svo var hann háður verkjalyfjum.

Favre segist hafa tekið allt af 14 Vicodin-verkjatöflur á dag leiktíðina 1995. Það tímabil var hann valinn besti leikmaður deildarinnar en hann var í heildina þrisvar valinn sá besti á ferlinum.

„Það er eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa hvað ég spilaði vel þetta tímabil. Allt tímabilið var staðan samt á mér þannig að þegar ég vaknaði hugsaði ég strax um að fá mér verkjatöflur,“ sagði Favre.

Fyrsta meðferðin sem Favre fór í var vegna verkjatöflufíknar en tveimur árum síðar fór hann út af áfenginu. Þriðja meðferðin var út af verkjatöflum.

„Þegar ég drakk var það alltaf í óhófi. Ég man óljóst eftir því er ég fór í áfengismeðferðina að hafa slegist við fólkið þar. Ég sætti mig ekki við að ég ætti við áfengisvandamál að stríða.“

Favre spilaði frá 1991 til 2010 og lengstum fyrir Green Bay Packers. Hann var tekinn inn í heiðurshöll NFL-deildarinnar árið 2016.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×