Innlent

Góður gangur í meirihlutaviðræðum í Eyjum

Birgir Olgeirsson skrifar
„Við hittumst í gær og þetta gekk bara ágætlega,“ segir Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi Eyjalistans, um meirihlutaviðræður Eyjalistans og H-listans, Fyrir Heimaey, sem hófust í gær.

„Það var góður hljómur í fólki, svo sem lítið annað um það að segja,“ segir Njáll um viðræðurnar sem verður haldið áfram í dag. „Svo sjáum við hvað gerist.“

Njáll segist vera bjartsýnn að eðlisfari. „Þannig að ég hef trú á svona verkefnum,“ segir Njáll.

Spurður hvort að listarnir muni handsala samkomulag í dag segir hann erfitt að segja til um það. „Það er svolítið verk eftir, en maður veit svo sem aldrei.“

Eyjalistinn er í oddastöðu í bæjarstjórn Vestmannaeyja með einn bæjarfulltrúa en Sjálfstæðismenn og Fyrir Heimaey eru með þrjá menn hvor. Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihluta sinn í kosningunum og þá missti Eyjalistinn einn mann úr bæjarstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×