Skoðun

Okkar stríð

Magnús Guðmundsson skrifar
Kona fer í stríð er nýjasta kvikmynd Benedikts Erlingssonar leikstjóra. Nýjasta kvikmyndin sem sprettur í íslenska kvikmyndasumrinu og þú átt að sjá hana í bíó. Ekki vegna þess að hún er íslensk og þar er töluð íslenska í faðmi íslenskra fjalla, heldur vegna þess að þetta er frábær kvikmynd sem á erindi við okkur öll. Hún er vel skrifuð, vel leikin, vel leikstýrð og vel gerð í alla staði en það sem mestu skiptir er að hún er heillandi, bráðskemmtileg og mikilvæg.

Kona fer í stríð vegna okkar og fyrir okkur. Vegna okkar sem erum á hraðri leið með að eyðileggja landið okkar. Eyðileggja þessa einu jörð sem við eigum í nafni hagvaxtar og okkar allra sem tökum velsæld og vellíðan fram yfir börnin okkar og komandi kynslóðir á hverjum degi. Þess vegna fer hún í stríð fyrir okkur sem sitjum heima í sófanum og höfum ekki einu sinni hugrekki til þess að skammast okkar fyrir aðgerðaleysið.

Kona fer í stríð vegna þess að hún er með hjartað á réttum stað og það slær í takt við skáldin, fegurðina og landið. Hún fer í stríð vopnuð menningu okkar, sögu og listum. „Hver á sér fegra föðurland, / með fjöll og dal og bláan sand, / með norðurljósa bjarmaband / og björk og lind í hlíð?“ orti Hulda í tilefni af lýðveldisstofnun árið 1944 vegna þess að þjóðin þráði að vera ekki öðrum háð. Þjóðin sem hikar ekki við að virkja fallvötnin til þess að alþjóðleg stórfyrirtæki geti sett upp verksmiðjur sínar og eyðilagt þetta fagra föðurland.

Kona fer í stríð vegna þess að við hin liggjum flöt í sófanum. Liggjum flöt fyrir lífsstílnum sem við höfum tamið okkur, ófáanleg til þess að standa upp, þó svo landið okkar spillist og jörðin sé að drukkna. Skítt með það, það er eitthvað annað í sjónvarpinu, segjum við okkur og treystum því að einhver annar fari í málið. Einhver eins og þessi kona sem er tilbúin til þess að fara í stríð fyrir framtíðina. Fyrir jörðina.

Kona fer í stríð vegna þess að stjórnmálamenn og -konur eru ekkert annað en framlenging á okkur hinum. Bergmálið af skammsýni okkar og væntingum um áframhaldandi hagvöxt og huggulegheit þar sem við græðum á daginn og grillum á kvöldin. Þau þjónusta okkur og þrælslund okkar við þá sem þurfa að græða meira og meira en meira er samt aldrei nóg. Þau eru háð samþykki og velvild okkar fjöldans og þau munu því aldrei framkvæma þá byltingu sem þarf til þess að bjarga jörðinni. Það er því ekki við stjórnmálafólkið að sakast heldur ber hvert og eitt okkar þessa ábyrgð. Þau eru aðeins hirðfífl við hirð fjöldans sem vill enga byltingu. Engar breytingar óháð orsök og afleiðingum.

Kona fer í stríð vegna þess að það þarf byltingu til þess að bjarga jörðinni. Það dugar ekkert minna til og hún þarf að koma frá okkur. Í þeirri byltingu þurfum við öll að færa fórnir. Bæði þú og ég þurfum að breyta lífsháttum okkar því jörðinni er að blæða út. Það verður að vera þess virði að berjast fyrir. Að breyta sér fyrir. Að gera byltingu.




Skoðun

Sjá meira


×