Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn og VG áfram í meirihluta í Mosfellsbæ

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Haraldur Sverrisson og Bjarki Bjarnason við undirritun málefnasamningsins.
Haraldur Sverrisson og Bjarki Bjarnason við undirritun málefnasamningsins.
Sjálfstæðiflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð undirrituðu  í dag málefnasamning um áframhaldandi meirihlutasamstarf í bæjarstjórn Mosfellsbæjar en meirihlutasamstarf flokkanna hófst árið 2006. Haraldur Sverrisson, oddviti Sjálfstæðismanna, verður bæjarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn kjörna í sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí síðastliðinn og VG einn mann. Meirihlutinn telur því alls fimm bæjarfulltrúa en níu manns sitja í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Í tilkynningu er haft eftir Haraldi að hann sé afar ánægður með niðurstöðuna og samstarfið við VG.

„Með okkar góðu gildi að leiðarljósi, virðingu – jákvæðni – framsækni og umhyggju eru okkur allir vegir færir. D- og V- listi hafa verið við stjórnvölinn undanfarin 12 ár og á þeim tíma hefur samfélagið eflst og þjónustan tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ,“ segir Haraldur.

Bjarki Bjarnason, oddviti Vinstri grænna, segir að í málefnasamningnum sem undirritaður var í dag sé talað skýrt í öllum málaflokkum sem snerta alla bæjarbúa með einum eða öðrum hætti.

„Okkur líst afar vel á starfið fram undan og málefnasamninginn sem var undirritaður við félagsheimilið Hlégarð í blíðskaparveðri. Í samningnum er talað skýrt í öllum málaflokkum sem snerta alla bæjarbúa með einum eða öðrum hætti. Mosfellingum fjölgar ört um þessar mundir og við erum reiðubúin að takast á við verkefnin sem stækka með hverju árinu,“ er haft eftir Bjarka í tilkynningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×