Innlent

Núverandi meirihlutatilraun í Reykjavík ekki gengið án fjölgunar borgarfulltrúa

Heimir Már Pétursson skrifar
Þeir flokkar sem nú reyna að mynda meirihluta í Reykjavík hefðu ekki náð meirihluta borgarfulltrúa ef þeim hefði ekki verið fjölgað úr fimmtán í tuttugu og þrjá. Vinstri græn hefðu ekki náð inn manni.

Í sveitarstjórnarkosningunum fyrir rúmri viku fengu þeir flokkar sem áður mynduðu meirihluta í Reykjavík og buðu fram í kosningunum tíu fulltrúa og eftir að Viðreisn hóf viðræður við þá hafa flokkarnir fjórir tólf fulltrúa, sem er lágmarksfjöldi til að mynda meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafa síðan tíu fulltrúa en Sósíalistaflokkurinn ákvað fljótlega eftir kosningar að taka ekki þátt í meirihlutaviðræðum.

Borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 í 23 eftir kosningarnar hinn 26. maí. Ef það hefði ekki verið gert hefðu þeir flokkar sem nú ræða myndun meirihluta ekki meirihluta borgarfulltrúa á bakvið sig því Vinstri græn hefðu ekki náð inn borgarfulltrúa og Viðreisn fengið einn en ekki tvo fulltrúa.

Átta fulltrúa hefði þurft til að mynda meirihluta en Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hefðu fengið sjö menn kjörna. Þá hefði Flokkur fólksins heldur ekki náð inn manni, Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið sex og Miðflokkurinn einn. Viðreisn hefði því hæglega getað myndað meirihluta með þessum tveimur flokkum, en þeir flokkar sem nú tala saman hefðu þurft á fulltrúa Sósíalistaflokksins eða Miðflokksins að halda til að ná að mynda meirihluta.

Aðrar samsetningar hefðu vissulega verið mögulegar. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hefðu getað myndað stóran meirihluta og Píratar og Sósíalistar hefðu einnig getað farið í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn þótt það verði að teljast ólíklegt miðað við yfirlýsingar flokkanna.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að ef ekki hefði verið fjölgað í borgarstjórn hefðu ef til vill færri flokkar boðið fram og atkvæði dreifst minna.

„Það sést af þessu að það falla færri atkvæði dauð með nýja fyrirkomulaginu. Þannig að fleiri borgarfulltrúar endurspegla þá betur þau fjölbreyttu sjónarmið sem eru á meðal borgarbúa,“ segir Dagur.


Tengdar fréttir

Pawel sæmilega bjartsýnn

Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn hafa fundað stíft undanfarna daga í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×