Fyrirspurnir tveggja þingmanna til samgönguráðherra á Alþingi í dag lýsa vel þeirri óþreyju sem gætir gagnvart vegarbótum á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrst spurði Miðflokksmaðurinn Sigurður Páll Jónsson hvort laga mætti ástandið með því að fjölga ferðum ferjunnar Baldurs yfir Breiðafjörð, sem ráðherra kvaðst taka til skoðunar.
Framsóknarþingmaðurinn Halla Signý Kristjánsdóttir sagði vegagerð um Teigsskóg í pattstöðu.
„Við erum að tala um tuttugu ára sögu vandræðagangs í máli sem hefur ekki náð eðlilegum framgangi vegna úrræðaleysis stjórnsýslunnar. Því hefur hreinlega verið unnið gegn eðlilegum samgöngubótum á Vestfjörðum,“ sagði Halla Signý.
Ráðherra sagði ferlið sorgarsögu stjórnsýslunnar en tillaga Reykhólahrepps um breytt aðalskipulag með vegi um Teigsskóg hefði nú verið send Skipulagsstofnun.
„Og ég veit að Skipulagsstofnun hefur farið yfir þá tillögu og býst við að sveitarstjórn auglýsi hana fljótlega, - væntanlega nú á fyrstu fundum sínum að afloknum sveitarstjórnarkosningum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

„Sem þýðir það í raun og veru að við gætum farið af stað sumarið 2019. Verktíminn er áætlaður þrjú ár. Þar með gætu verklok verið kannski haustið 2022, samkvæmt þessu plani, svona miðað við alla venjulega tímafresti,“ sagði ráðherra.
Halla Signý sagði nýlega skoðanakönnun sýna að tæp 90 prósent Vestfirðinga styddu vegagerð um Teigsskóg.
„Og hugmyndin að þessari vegarlagningu er löngu orðin fullorðin. Og Vestfirðingar eru mosavaxnir á því að bíða eftir þessu,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: