Konur í Sádi-Arabíu fá rétt til að keyra bíl þann 24. júní næstkomandi, en Sádi-Arabía er enn eina land heimsins sem bannar konum að keyra bíl.
Tíu sádi-arabískar konur hlutu í gær ökuskírteini en búist er við því að um 2000 konur sæki um ökuréttindi næstu vikuna. Salman konungur gaf út tilskipun á síðasta ári um að konum skildi leyft að aka bíl, enda samræmdist það íslömskum lögum.
Konur eiga þó langt í land í Sádi Arabíu til að fá jöfn réttindi á við karla. Á laugardag var átta aðgerðarsinnum tímabundið sleppt úr haldi, en þau voru handtekin í maí fyrir að mótmæla akstursbanni kvenna. Fimm konum og þremur körlum var sleppt úr haldi en níu aðgerðasinnar eru enn í haldi lögreglu.
Afnám akstursbannsins er hluti af metnaðarfullri efnahagsáætlun krónprins landsins. Hluti hennar felur í sér að auka hlut kvenna á vinnumarkaði. Þá gaf Salman konungur út lista í maí á síðasta ári um þjónustu sem konur mega sækja án leyfis frá föður, eiginmanni eða öðrum karlkyns forráðamanni.
