Innlent

Segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið lokaður úti: „Hún er bara að fegra hlutina“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Rakel Óskarsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og Elsa Lára Arnarsdóttir oddviti Framsóknar og frjálsra
Rakel Óskarsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og Elsa Lára Arnarsdóttir oddviti Framsóknar og frjálsra Samsett mynd/Aðsent
„Þau tala eins og okkur hafi verið boðið að borðinu en þau tala við mig á sjötta degi eftir kosningar. Þó að við höfum ítrekað reynt að ná einhverju samtali þá var því bara ekki svarað,“ segir Rakel Óskarsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Samfylkingin og Framsókn og frjálsir á Akranesi hafa myndað nýjan meirihluta og var skrifað undir málefnasamninginn í gærkvöldi.

Rakel telur að hugsanlega hafi flokkarnir verið búnir að gera samkomulag fyrir kosningarnar um að fara í samstarf ef meirihlutinn myndi falla, sem hann gerði. Þessi ákvörðun um nýja meirihlutann hafi sennilega verið tekin snemma í ferlinu.

„Maður gæti ímyndað sér að það hafi verið búið til að gera einhvers konar samkomulag. […] Ég spyr mig að því af því að dyrnar voru strax lokaðar.“

Satt skal vera satt

Í viðtali á Vísi í gær var Elsa Lára Arnarsdóttir oddviti Framsóknar og frjálsra spurð út í það hvort samstarf með Sjálfstæðisflokki hefði komið til greina. Hún svaraði þá: 

„Við kölluðum þau á fund okkar og buðum þeim ákveðin sæti en þau ákváðu að taka það ekki og þar við situr bara,“

Rakel segir að þetta sé ekki rangfærsla en segi samt alls ekki alla söguna.

„Hún er ekki að ljúga neinu en hún er bara að fegra hlutina.“

Rakel segir að það hafi verið sérstakt að lesa svar Elsu Láru á Vísi í gær.

„Ég get ekki skilið mína kjósendur eftir með það að við hefðum ekki viljað samstarf. Ég meina við fengum 42 prósent fylgi og við verðum að fylgja því eftir. Satt skal vera satt.“

Sjá einnig: Búið að semja um myndun nýs meirihluta á Akranesi

Bæjarfulltrúar á AkranesiVísir/Gvendur

Útilokuð frá byrjun

Rakel segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðið Elsu Láru, oddvita framsóknarflokksins, til viðræðna um myndun nýs meirihluta að kvöldi kosningadags. Sem Rakel segir að þau hafi talið að væri nógu tímanlega.

„Nánar tiltekið kl. 23:27. Hún afþakkaði það boð og sagðist vera komin í viðræður við oddvita Samfylkingarinnar um myndun nýs meirihluta á Akranesi,“ útskýrir Rakel. Lokatölur fyrir Akranes lágu fyrir klukkan rúmlega hálf eitt á kosninganótt. Rakel segir að fyrir það hafi þetta strax verið slegið af því Framsókn og frjálsir hafi verið byrjaðir í samstarf með öðrum. Kjörnir bæjarfulltrúar flokkanna tveggja á Akranesi hafa fundað saman síðustu daga.

„Okkur er ekki boðið neitt samstarf eða samtal fyrr en á sjötta degi og þá er okkur boðið smá hlutverk í stjórnsýslunni með varaformennsku í ráði. Við afþökkuðum það bara,“ segir Rakel.

„Það er ekkert samtal og menn státa sig af því að það sé búinn að vera svo góður andi í bæjarstjórn á Akranesi og vonandi vinni allir áfram saman og vel. Eins og á síðasta meirihluta þar sem við vorum með hreinan meirihluta en við ákváðum að taka Bjarta framtíð með okkur bara til að auka á lýðræðið, auka samtalið við fleiri og eiga breiðari rödd í bæjarstjórn. Við töluðum reyndar við alla, það fengu allir að koma að borðinu og tjá sig. Svo var þetta valið að fara þessa leið.“

Rakel segir að það hafi verið farið mjög ólík aðferð núna við myndun nýs meirihluta, hún hafi heyrt í hvorugum oddvitunum, Valgarði Lyngdal Jónssyni oddvita Samfylkingar og Elsu Láru Arnardóttur oddvita Framsóknar og frjálsra, fyrr en á sjötta degi eftir kosningar núna á föstudaginn.

„Einn flokkur er útilokaður frá samstarfi alveg frá byrjun. Þrátt fyrir að okkar bakland hafi verið að ná vel til Framsóknarmanna allavega.“

Spennt fyrir nýju hlutverki

Í kosningunum var Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á Akranesi með 41,4 prósent atkvæða og fékk fjóra menn kjörna af níu. Samfylkingin fékk 31,2 prósent og þrjá bæjarfulltrúa og Framsóknarflokkurinn og frjálsir 21,8 prósent og tvo bæjarfulltrúa. Miðflokkurinn hlaut 5,7 prósent og náði ekki inn manni og Björt framtíð, sem voru í meirihlutanum á síðasta kjörtímabili, bauð sig ekki fram.

Sjálfstæðisflokkurinn missti einn bæjarfulltrúa frá því á síðasta kjörtímabili og hélt meirihlutinn því ekki en Rakel segir að það hefði verið rökrétt fyrir þau að reyna að mynda meirihluta með Framsókn og frjálsum.

„Það er bara pínu „lógískt“ ef þú horfir bara út frá ríkisstjórnarmunstrinu, aðgengi að ráðherrum, aðgengi að ríkisfjármagni og öðru að gera þetta út frá þeim grundvelli. En það var ekki hlustað á það.“

Hún segir að komandi tímar verði bara spennandi og tekur fram að það séu margir góðir punktar í málefnasamningi nýja meirihlutans.

„Margir kunnuglegir og margir sem við [fráfarandi meirihluti] höfum verið að leggja grunninn að fyrir komandi tímabil. Ég hlakka bara til að takast á við okkar nýja hlutverk. Það er okkar hlutverk að veita þeim aðhald sem minnihluti og við komum alveg til með að gera það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×