Viðræður Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata um myndun meirihluta í Reykjavíkurborg halda áfram í dag og fara fram í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Í gær funduðu fulltrúar flokkanna í Marshall-húsinu úti á Granda en tveir fulltrúar hvers flokks fyrir sig taka þátt í viðræðunum.
Viðreisn ákvað seinnipartinn á miðvikudag að ganga til formlegra viðræðna um myndun nýs meirihluta í borginni með fráfarandi meirihlutaflokkum, Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum. Í samtali við fréttastofu í gærkvöldi sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, að áherslurnar breytist með aðkomu Viðreisnar.
