Fótbolti

Föstu leikatriðin vopn í búrinu

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Kári í háloftunum í leiknum í Moskvu.
Kári í háloftunum í leiknum í Moskvu. vísir/vilhelm
Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins, tók undir með blaðamanni að föstu leikatriði íslenska liðsins hefðu oft heppnast betur en í leiknum gegn Argentínu. Í raun skapaðist aldrei hætta við mark Argentínumanna eftir innköst, horn eða aukaspyrnur en Argentínumenn náðu að ógna úr hornspyrnum í fyrri hálfleiknum.

„Ég er sammála því, þau hefðu getað verið betri. Bæði löngu innköstin, aukaspyrnur og horn,“ segir Kári sem spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar með sínum uppáhaldsmiðverði Ragnari Sigurðssyni. Félagarnir hafa verið í kjarna varnarinnar undanfarin sex ár og lofsyngja hvor annan reglulega. Ná mjög vel saman.

Ekki hafi vantað upp á planið í föstu leikatriðunum en hlutir gengu ekki upp.

„Við vissum nákvæmlega hvað við vildum gera en náðum ekki að fría okkur. Ég náði ekki að vinna nógu mörg skallaeinvígi í löngu innköstunum. Þetta var ekki alveg upp á tíu eins og það er venjulega,“ segir Kári sem sér þó jákvæðan punkt. 

„Það er gott ef það er vopn í búrinu sem við notuðum ekki gegn Argentínu. Ef við getum fengið það í gang gegn Nígeríu þá er það gríðarlega jákvætt.“

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×