Fótbolti

Eins nálægt alsælu og þú kemst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson þjálfar kvennalandsliðið en hefur í nógu að snúast á Heimsmeistaramóti karla í Rússlandi.
Freyr Alexandersson þjálfar kvennalandsliðið en hefur í nógu að snúast á Heimsmeistaramóti karla í Rússlandi. Vísir/Getty
Auk þess að vera þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta starfar Freyr Alexandersson einnig fyrir karlalandsliðið, sem yfirleikgreinandi. Hann var með mótherja Íslands á laugardaginn var, Argentínu, á sinni könnu.

„Þetta var fyrst og fremst framkvæmd strákanna. Ég get sagt hvað sem er en ef þeir framkvæma hlutina ekki eins og þeir gerðu gegn Argentínu lít ég út eins og asni,“ sagði Freyr í samtali við Fréttablaðið. Auk hans eru sænski reynsluboltinn Roland Andersson, Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ, og Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U-17 ára liðs karla, í leikgreiningarteymi karlalandsliðsins.

Að sögn Freys var vinnan við að leikgreina argentínska liðið umfangsmikil, sérstaklega í ljósi þess að síðan Jorge Sampaoli tók við því fyrir um ári hefur hann notað fjölda leikmanna og mörg mismunandi leikkerfi.

„Ég horfði á 12 leiki en fyrir tveimur mánuðum þrengdum við þetta niður í fjóra sem við tókum mest úr,“ sagði Freyr. „Það fór mikil vinna í þetta og þú þarft að undirbúa þig undir hvað sem er. En fyrir viku vissum við nokkurn veginn hvað væri að fara að gerast. Að sjá strákana framkvæma þetta svona er eins nálægt alsælu og þú kemst.“

Meðan á leiknum á laugardaginn stóð sat Freyr í fréttamannastúkunni á Spartak-vellinum með stærðarinnar heyrnartól sem hann notaði til að koma skilaboðum til þjálfaranna á hliðarlínunni.

„Ég er með aðeins meiri yfirsýn og reyni að sjá eitthvað sem þeir sjá ekki. Svo skila ég þeim upplýsingum niður til Gumma [Hreiðarssonar] og hann kemur því til Heimis [Hallgrímssonar]. Helgi [Kolviðsson] er svo með spjaldtölvu þannig að við getum sent myndir úr myndavél sem er yfir vellinum. Ef það er eitthvað taktískt sem er hægt að útskýra á auðveldan hátt sendum við það niður. Á sama tíma erum við safna upplýsingum fyrir hálfleikinn,“ sagði Freyr.

Hann segir að íslenska þjálfarateymið hafi fengið þetta kerfi og samskiptabúnað fyrst fyrir þremur mánuðum. Frá EM 2016 hafi Freyr hins vegar alltaf verið uppi í stúku í fyrri hálfleik en setið niðri á hliðarlínunni í þeim seinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×