Fótbolti

Helgi: Ég er viss um að við getum gert betur

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eiga enn þá meira inni að mati Helga Kolviðssonar.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eiga enn þá meira inni að mati Helga Kolviðssonar. vísir/vilhelm
Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, var eðlilega sáttur með framlag strákanna okkar á móti Argentínu í fyrradag þegar að liðið gerði 1-1 jafntefli við Argentínu.

Það sem að þjálfarateymið lagði upp með gekk nánast fullkomlega upp í leiknum eins og sást og það voru þjálfararnir ánægðir með.

„Þetta var skemmtilegt. Við vorum búnir að liggja lengi og mikið yfir þessu. Það var fullt af atriðum sem þeir vildu gera sem að við náðum að stöðva í fæðingu. Það sést kannski ekki fyrir þá sem eru utanaðkomandi hvað þeir voru að reyna eins og í föstum leikatriðum,“ segir Helgi.

Íslenska liðið hefur spilað marga frábæra leiki og náð ótrúlegum úrslitum undanfarin ár. Jafnteflið á móti tvöföldum heimsmeisturum Argentínu er því ekkert endilega það sem kemst efst á listann.

Helgi Kolviðsson vill gera enn betur.Vísir/Vilhelm
„Nei, ég ekkert alveg á því. Við getum gert betur, ég er alveg viss um það. Þegar að við komum frá Frakklandi voru margir hlutir sem við vildum bæta og ég held að við gert það eins og í undankeppninni fyrir HM,“ segir Helgi.

„Þar fórum við að bæta marga hluti. Við héldum boltanum betur og vorum að spila meira og lengur. Við tókum þetta skref fyrir skref. Það var stress í öllum í þessum fyrsta leik en það er fullt í okkar leik sem ég veit að við getum bætt.“

Þegar að Helgi ræddi við íslenska fjölmiðla á æfingu liðsins í gær var formlegur undirbúningur fyrir leikinn á móti Nígeríu ekki hafinn.

„Ég var að horfa á okkar leik í flugvélinni í gær [fyrradag]. Við ætlum svo að fara yfir hann í kvöld [gærkvöld]. Þetta er 24 tíma vinnuregla. Við klárum þann leik fyrst og á morgun byrjar undirbúningurinn fyrir Nígeríu,“ segir Helgi Kolviðsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×