Fótbolti

„Lítill kubbur“ sem Hannes fékk geymdi leyndarmál Messi á vítapunktinum

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Það var mikil vinna lögð í þessa stund.
Það var mikil vinna lögð í þessa stund. vísir/getty
Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, var að rifna úr stolti yfir sínum manni Hannesi Þór Halldórsson á æfingu liðsins í Kabardinka í gær en liðið flaug „heim“ strax eftir leikinn í gærkvöldi.

Það var engin tilviljun að Hannes skutlaði sér í rétt horn í gær því gríðarlegur undirbúningur fer í hvern leik hjá markvarðateyminu. Bæði er farið yfir málin á fundum og svo vinna menn sjálfir heimavinnuna sína.

„Vinnureglan er sú að ég tek saman fullt af klippum eins og ég gerði fyrir þennan leik og fyrir alla aðra leiki. Á honum eru vítaspyrnur, aukaspyrnur og föst leikatriði,“ segir Guðmundur en lítill minniskubbur skilaði svo sögulegri stundu í íslenskri fótboltasögu í gær.

„Auðvitað erum við búnir að skoða þetta á liðsfundum en svo fá markverðirnir kubb frá mér eins og í þessu tilfelli.“

Guðmundur vissi alveg hvert Messi var að fara að skjóta í gær líkt og Hannes Þór Halldórsson.

„Þegar að Messi er með sjálfstraustið í botni þá skýtur hann yfirleitt fast í hitt hornið en þegar að hann er undir pressu og þegar að hann þarf að skora og allt er undir skýtur hann í hornið sem Hannes fór í í gær,“ segir Guðmundur Hreiðarsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir

Þrír íslenskir í liði gærdagsins á HM

Ísland gerði 1-1 jafntefli við Argentínu í fyrsta leik þjóðanna á HM í fótbolta í gær. Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslendinga og Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×