Fótbolti

Engin íslensk töfraformúla til að stoppa Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson á fundinum.
Heimir Hallgrímsson á fundinum. Skjámynd
Íslenski landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson var að sjálfsögðu spurður út í það á blaðamannafundi hvernig íslenska landsliðið ætlaði að stoppa Lionel Messi á morgun þegar Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik sínum á HM.

Heimir Hallgrímsson var aftur á móti ekkert alltaf sáttur við þá fullyrðingu að það hefði verið kraftaverk að íslenska landsliðið sé komið á HM. Hann bendir á stöðugleika hjá íslenska landsliðinu undanfarin ár.

„Liðið hefur verið í kringum 20 á FIFA listanum, við unnum riðilinn okkar í undankeppninni og við höfum sýnt að Ísland eigi það skilið að vera hérna,“ sagði Heimir.

Varðandi spurninguna um hvernig Ísland ætlaði að stoppa Lionel Messi þá sagðist Heimir að íslenska landsliðið væri ekki með töfraformúlu til að stoppa einn besta knattspyrnumanns heims.  

„Allir búnir að reyna allt á móti honum en honum tekst alltaf að skora, og vera sá besti í heimi. Við gerum allt saman, hjálpum hver öðrum og gerum þetta sem liðsheild. Það væri ósanngjarnt að setja einn leikmann í það hlutverk að stoppa Messi,“ sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×