Fótbolti

Sádar biðja þjóðina sína afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta var erfitt kvöld fyrir leikmenn Sádi-Arabíu.
Þetta var erfitt kvöld fyrir leikmenn Sádi-Arabíu. Vísir/Getty
Landslið Sádi-Arabíu gat ekki byrjað heimsmeistarakeppnina mikið verr þegar liðið steinlá 5-0 á móti Rússlandi í opnunarleiknum á Luzhniki-leikvanginum í gær.

Rússarnir fullkomuðu niðurlæginguna með því að skora tvö mörk í uppbótartíma leiksins og setja um leið met því aldrei hefur opnunarleikur HM unnist með stærri mun.

Turki Al Sheikh, forseti íþróttaráðs Sádi-Arabíu, setti myndband inn á fésbókina þar sem hann bað þjóð sína afsökunar á úrslitunum í gær.

Turki sagði meðal annars í afsökunarbeiðni sinni að enginn leikmaður landsliðsins væri virði meira en ein milljón ríals sem er um 28 milljónir íslenskra króna.

Al Sheikh talaði einnig um það að hann og liðið taki fulla ábyrgð á þessum úrslitum og leyndi því janframt ekkert hversu mikil niðurlæging þessi úrslit voru fyrir hann, liðið og þjóðina.

Lið Sádi-Arabíu ætti samkvæmt stöðunni á FIFA-listanum að vera búið með „auðveldasta“ andstæðing sinn á mótinu því hin liðin í riðlinum eru Úrúgvæ og Egyptaland.

Miðað við hvað leikmenn Rússa léku lausum hala í leiknum í gær og hversu marklaus leikur Sádi-Arabíu var allan leikinn þá gæti þetta heimsmeistaramót endað afar illa fyrir Sádana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×