Fótbolti

Stór hluti Færeyinga styður Ísland á HM

Sylvía Hall skrifar
Frændur okkar í Færeyjum eru greinilega góðir stuðningsmenn og fögnuðu eftirminnilega 1-1 jafntefli Íslands við Portúgal á Evrópumótinu fyrir tveimur árum síðan.
Frændur okkar í Færeyjum eru greinilega góðir stuðningsmenn og fögnuðu eftirminnilega 1-1 jafntefli Íslands við Portúgal á Evrópumótinu fyrir tveimur árum síðan. Vísir/SH
Nú eru aðeins tveir dagar í fyrsta leik Íslands á heimsmeistaramótinu í fótbolta og spennan á meðal stuðningsmanna Íslands að ná hámarki. Það eru þó ekki bara Íslendingar sem hlakka til að sjá íslenska landsliðið mæta á völlinn á laugardaginn, en frændur okkar í Færeyjum munu styðja dyggilega við bakið á landsliðinu þegar það mætir til leiks í Rússlandi.

Samkvæmt skoðanakönnun í Facebook-hópnum „Fótboltskjak“, eða fótboltaspjallið eins og mætti þýða það á íslensku, segjast 41,7% styðja íslenska liðið á HM. Því næst koma Englendingar með 16,2% og Danir sitja í þriðja sætinu með 10,6% stuðning meðlima hópsins.

Margir leikir á heimsmeistaramótinu verða sýndir í beinni útsendingu á Trappuni í miðbæ Þórshafnar, en þar verður risaskjá stillt upp þar sem hægt verður að fylgjast með beinum útsendingum frá mótinu. Fyrst og fremst verða þó leikir Íslands og Danmerkur sýndir, og í tilkynningu frá fjarskiptafyrirtækinu Føroya Tele, sem stendur fyrir sýningu leikjanna, er vonast eftir því að sama stemning nái að skapast í kringum leikina og var á Evrópumótinu 2016.

Sjá einnig: Frændur okkar í Færeyjum ærðust af fögnuði í leikslok

Það vakti mikla athygli þegar frændur okkar fögnuðu jafntefli Íslands við Portúgal vel og innilega í miðbæ Þórshafnar á EM 2016, en leikurinn var einmitt sýndur á sama stað í miðbænum og sýningar verða í ár. Það er því óhætt að segja að íslenska liðið eigi trausta stuðningsmenn í frændum okkar sem bíða spenntir eftir að sjá lið Íslands mæta Argentínu á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×