Fótbolti

Rúrik: Vonbrigðin voru mikil en ég er þakklátur fyrir traustið

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Rúrik Gíslason nýtur sín vel í hitanum.
Rúrik Gíslason nýtur sín vel í hitanum. vísir/vilhelm
Rúrik Gíslason, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, nýtur sín vel í sumri og sól eins og dagarnir eru í Gelendzikh þar sem að hitinn er nálægt 30 gráðum alla daga.

Rúrik sleikir sólina með félögum sínum á sundlaugabakkanum á hóteli landsliðsins en þeir mega þó ekki vera þar allan daginn alla daga.

„Ég hef hrikalega gaman að þessu. Ég er hrifinn af hita og svo er völlurinn eins og best verður á kosið. Þetta er bara æðislegt,“ segir Rúrik um aðstæður hér.

„Við tökum kannski klukkutíma eða einn og hálfan í sólinni og slökum á en fyrir utan það er maður bara í meðferð hjá sjúkraþjálfurum. Svo horfum við á bíómyndir á kvöldin og drekkum kaffi saman og ræðum málin.“

Rúrik Gíslason var í viðtölum í dag.vísir/vilhelm

Þakklátur fyrir traustið

Það er ákveðin listgrein að vera svona lengi á hóteli og hvað þá með heilum hópi manna sem þarf að umgangast hvorn annan allan daginn.

„Ef maður væri að fara í fyrsta skipti á hótel í svona langan tíma væri það kannski erfitt en við erum orðnir vanir þessu. Ég er enn þá bara mjög ferskur og hrifinn af þessu,“ segir Rúrik.

Rúrik var í raun ekki lengi að vinna sig aftur inn í íslenska hópinn eftir að hann var ekki valinn í EM-hópinn fyrir tveimur árum. Hann hefur fengið stærra og stærra hlutverk í liðinu undanfarin misseri og er líklegur til að gera góða hluti á HM.

„Mig langar það mjög mikið. Ég er þakklátur fyrir það traust sem að Heimir hefur sýnt. Það var alltaf markmiðið að koma aftur inn í landsliðið. Það voru mikil vonbrigði að missa af Evrópumótinu en þá var það eina í stöðunni,“ segir Rúrik.

Hitinn er mikill í Kabardinka.vísir/vilhelm

Tilbúinn í allt

„Þá var það eina í stöðunni að bæta enn meiri vinnu við. Mér finnst eins og ég hafi bætt mig að einhverju leyti. Ég er allavega hér og ef að þeir vilja nýta mína krafta þá er ég klár í það.“

Vængmanninum öfluga langar mikið að fá tækifæri til að sýna sig á HM og reyna hjálpa liðinu að ná árangri.

„Ef mann langar ekki að gera vel núna getur maður alveg eins hætt í fótbolta. Sviðið verður ekkert mikið stærra. Ég finn bara með áhuga og annað að það er rosalega auðvelt að hvetja sig áfram. Ég er tilbúinn til að gera allt til þess að gera eitthvað af viti hérna,“ segir Rúrik Gíslason.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×