Erlent

Vara við notkun raftækja á HM í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mælt er með því að þeir sem það geta skilji snjalltækin sín eftir heima.
Mælt er með því að þeir sem það geta skilji snjalltækin sín eftir heima. Vísir/Getty
Bandarísk og bresk yfirvöld hafa varað borgara sína sem ætla til Rússlands fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu við því að nota raftæki eins og snjallsíma eða fartölvur. Þau vísa til hættunnar á að glæpamenn eða rússnesk stjórnvöld gætu brotist inn í tækin og stolið persónuupplýsingum.

William Evanina, yfirmaður Gagnnjósna- og öryggismiðsstöðvar Bandaríkjanna, segir við Reuters-fréttastofuna að hakkarar geti haft áhuga á raftækjum ferðalanga á HM jafnvel þó að þeir séu engir stórlaxar. Fulltrúar fyrirtækja og stjórnvalda séu þó í mestri hættu.

„Ef þú kemst af án tækisins, ekki taka það með. Ef þú verður að taka það, taktu annað tæki en þú notar vanalega og taktu rafhlöðuna úr þegar það er ekki í notkun,“ segir Evanina.

Tölvuöryggisstofnun Bretlands segist vera enska knattspyrnusambandinu innan handar varðandi öryggismál á HM. Bresk yfirvöld hafa einnig varað almenning við hættuna á tölvuhökkurum í Rússlandi.

Patrick Wardle, tölvuöryggissérfræðingur, mælir með því að nota einnota farsíma í Rússlandi. Slíkum tækjum er yfirleitt hent eftir tímabundna notkun og því skipti litlu hvort að hakkarar komist inn í þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×