Erlent

Ákærður fyrir að skjóta óvart mann á dansgólfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Chase Bishop á dansgólfinu.
Chase Bishop á dansgólfinu.
Alríkislögreglumaðurinn Chase Bishop hefur verið ákærður fyrir alvarlega líkamsárás vegna voðaskots þar sem hann skaut óvart mann á dansgólfi skemmtistaðar þegar hann stökk heljarstökk. Atvikið var tekið upp á myndband sem fór eins og eldur í sinu um internetið. Frekari ákærur gætu verið lagðar fram en það veltur á niðurstöðum úr blóðrannsóknum.



Lögreglumaðurinn, sem var ekki á vakt, steig trylltan dans einn síns liðs á miðju gólfinu við góðar undirtektir annarra á dansgólfinu. Þegar hann ætlaði að bæta um betur með heljarstökki vildi ekki betur til en svo að skammbyssa losnaði úr buxnastreng hans og féll á dansgólfið.



Fyrstu viðbrögð hans voru að grípa byssuna en þá var hann svo óheppinn að grípa einmitt í gikkinn með þeim afleiðingum að skot hljóp úr byssunni og hæfði einn bargestinn í fótlegginn. Sá var fluttur á sjúkrahús þar sem kúlan var fjarlægð en reyndist hafa sloppið nokkuð vel.

Hann gaf sig fram við lögreglu í gær og mun fara fyrir dómara í dag.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×