Íslenski boltinn

Dani á reynslu hjá Blikum en Tokic á förum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tokic á líklega ekki eftir marga leiki í græna búningnum.
Tokic á líklega ekki eftir marga leiki í græna búningnum. vísir/andri marinó
Hrvoje Tokic er líklega á förum frá Breiðablik en þetta staðfestir heimasíða félagsins nú í kvöld. Danskur sóknarmaður er á reynslu hjá félaginu.

Tokic kom frá Ólsurum fyrir síðasta tímabil. Hann skoraði ellefu mörk í 31 leik fyrir Blikana en hefur verið mikið í kuldanum á þessari leiktíð og er nú að öllum líkindum á leið burt.

„Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur ákveðið að gefa Hrvoje Tokic leyfi til að fara frá félaginu og leita sér að nýju liði,” segir á heimasíðu Blika.

Danskur framherji er á reynslu hjá Breiðablik þessa stundina og verður ákveðið á næstu dögum hvort að samið verður við hann.

Félagsskiptaglugginn opnar hins vegar ekki fyrr en fimmtánda júlí svo Tokic getur ekki skipt um lið fyrr en þá. Þá geta Blikarnir ekki spilað Dananum, semji þeir við hann, fyrr en eftir þann fimmtánda.

Breiðablik er í öðru sæti Pepsi-deildarinnar með fjórtán stig. Liðið hefur skorað tólf mörk í fyrstu átta leikjunum en liðið er stigi á eftir Val sem er á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×