Íslenski boltinn

Logi: Það er enginn ánægður í deildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pepsi deild karla fer aftur af stað um helgina eftir hlé vegna heimsmeistaramótsins í fótbolta. Víkingur fær erfitt próf í fyrsta leik eftir hlé, þeir sækja KR heim á sunnudag.

„Það hefði kannski getað verið þægilegra verkefni, en það er reyndar ekkert verkefni þægilegt, þetta er allt erfitt og KR mjög sterkt lið og góðir á sínum heimavelli. Við þurfum að draga fram allt það besta til þess að vinna leikinn,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, samdi við Víking fyrir heimsmeistaramótið og bíða Víkingar komu hans.

Víkingur byrjaði mótið vel og tapaði ekki leik í fyrstu þremur umferðunum. Síðan þá hefur gengi liðsins hins vegar versnað og eru aðeins einu stigi frá fallsæti eftir níu umferðir.

„Það eru ekki mörg lið sem hafa náð að sýna sitt besta. Breiðablik hefur komið á óvart með góðum leik og góðum sigrum, Valur var í basli í upphafi og FH, KR og við. Staðan er eiginlega sú að það er enginn ánægður í deildinni og þar erum við virkilega meðtaldir.“

„Ég vona bara innilega að þetta verði áframhaldandi skemmtun. Hluti af skemmtuninni er spenna og ef við náum að gera spennu á toppi og botni þá er gaman,“ sagði Logi Ólafsson.

Leikur KR og Víkings er í beinni útsendingu frá Alvogenvellinum á Stöð 2 Sport á sunnudag klukkan 19:05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×