Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans, segir blikur á lofti vegna uppsagna á annars tugs ljósmæðra nú á sunnudaginn. Páll bendir á í forstjórapistli sínum að þær uppsagnir bitni í fyrstu aðallega á meðgöngu- og sængurlegudeild spítalans. Spítalinn hefur sett upp aðgerðaráætlun og undirbúið aukna samvinnu á milli deilda spítalans og einnig fengið vilyrði frá öðrum heilbrigðisstofnunum um aukna þjónustu. Páll segir stöðuna engu að síður vera þrönga og að afleiðingar uppsagnanna verði óhjákvæmilega skert þjónusta.
Páll talar einnig um að starfsfólk hafi þurft að að hliðra til fríum sínum vegna manneklu og álags til að tryggja öryggi og þjónustu. Páll segir einnig að það hafi verið erfitt að skipuleggja sumarstarfsemina og að það verði að kappkosta að lenda ekki í svipaðri stöðu að ári.

