Erlent

Reknir fyrir rasískar þakkir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fagnaðarlætin þóttu óviðeigandi.
Fagnaðarlætin þóttu óviðeigandi. Twitter
Tveir þáttastjórnendur bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Telemundo hafa verið reknir eftir rasísk fagnaðarlæti. Mennirnir, sem ættaðir eru frá Mexíkó, ærðust úr gleði þegar Suður-Kórea lagði Þýskaland á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Sigurinn varð til þess að mexíkóska landsliðið komst upp úr riðlinum og inn í 16-liða úrslitin.

Sjá einnig: Svona líta 16-liða úrslitin út

Í fagnaðarlátunum, sem fram fóru í beinni sjónvarpsútsendingu, hermdu mennirnir eftir skásettum augum - sem túlkað hefur verið sem vísun í suður-kóresku landsliðsmennina. Fjölmargir áhangendur mexíkóska liðsins gerðu slíkt hið sama og birtu myndir af sér á samfélagsmiðlum.

Aðrir netverjar voru ekki jafn kátir með uppátækið, sem þeir segja einkennast af kynþáttafordómum. Suður-Kóreumenn voru margir hverjir mjög vonsviknir. „Þeir segjast elska okkur og að við séum bræður, hvers vegna eru þeir þá að gera þetta?“ spurði einn suður-kóreskur netverji sig eftir að myndir af mexíkóskum stuðningsmönnum fóru að hrúgast inn á samfélagsmiðla.

Telemundo sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem segir að aðstandendur stöðvarinnar hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með þáttastjórnendurna. „Fyrirtækið okkar tekur allir svona hegðun mjög alvarlega enda gengur hún í berhögg við allt það sem fyrirtækið stendur fyrir,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni. Þáttastjórnendurnir hafa báðir beðist afsökunar og viðurkennd að fagnaðarlæti þeirra hafi verið óviðeigandi.


Tengdar fréttir

Svona líta 16-liða úrslitin út

Nú er riðlakeppninni á HM í Rússlandi lokið, en síðustu leikir hennar fóru fram í kvöld. Það er því orðið ljóst hvaða lið mætast í 16-liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×