Fótbolti

Campbell: Southgate á að setja Kane á bekkinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kane skorar úr einni vítaspyrnu sinni í leiknum gegn Panama
Kane skorar úr einni vítaspyrnu sinni í leiknum gegn Panama vísir/getty
Fyrrum Arsenal- og Tottenhammaðurinn Sol Campbell segir Harry Kane eiga að byrja á bekknum í leik Englands og Belgíu á HM í Rússlandi í kvöld.

Liðin eigast við í úrslitaleik um efsta sæti G riðils en þau eru bæði komin áfram í 16-liða úrslit.

Kane er markahæstur á HM til þessa með fimm mörk og hefur sagt það að hann stefni að því að hirða gullskóinn. Campbell vill hins vegar hvíla Kane í leiknum þar sem England er öruggt áfram í keppninni.

„Ég væri frekar til í að Kane byrji á bekknum og komi inn á seint í seinni hálfleik. Hann mun berjast fyrir því að spila en ég held að hér þurfi að horfa á heildarmyndina. Hann vill gullskóinn en það þarf líka að hvíla lappirnar aðeins,“ sagði Campbell sem er einn sérfræðinga Sky Sports.

„Leikmenn átta sig oft ekki á því hversu þreyttur líkaminn er því spennustigið er hátt.“

Campbell vildi þó ekki sjá Southgate gera of margar breytingar því þá fari allur kjarninn úr liðinu.

Leikur Belgíu og Englands hefst klukkan 18:00 í kvöld og er í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×