Fótbolti

Hector Cuper hættur með Egypta

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hector Cuper á hliðarlínunni í Rússlandi
Hector Cuper á hliðarlínunni í Rússlandi vísir/getty
Hector Cuper hefur sagt starfi sínu sem landsliðsþjálfari Egyptalands lausu eftir að liðinu tókst ekki að komast áfram úr A-riðli á HM í Rússlandi.

Egyptaland var í lokakeppni HM í fyrsta skipti í 28 ár en náði ekki í svo mikið sem eitt stig.

Axlarmeiðsli skærustu stjörnu liðsins, Mohamed Salah, höfðu líklega mikil áhrif á undirbúning liðsins en hann var fjarri góðu gamni í 1-0 tapi gegn Úrugvæ í fyrsta leiknum. 

Salah var mættur í annan leik gegn Rússum og skoraði eina mark Egypta í 3-1 tapi. Hann gerði einnig eina mark Egypta í 2-1 tapi gegn Sádi-Arabíu í lokaleiknum.

Cuper hefur stýrt Egyptum frá því í mars 2015 en þessi 62 ára gamli Argentínumaður hefur marga fjöruna sopið í þjálfarabransanum. Hann hefur meðal annars stýrt evrópskum stórliðum á borð við Valencia og Inter Milan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×