Fótbolti

Þjálfari Króatíu: Tapið gegn Íslandi var sárt

Henry Birgir Gunnarsson í Rostov við Don skrifar
Dalic er að gera flotta hluti með króatíska liðið.
Dalic er að gera flotta hluti með króatíska liðið. vísir/getty
Króatar hafa alls ekki lagt síðasta leik sinn gegn Íslandi til hliðar en þá töpuðu Króatar eftirminnilega á Laugardalsvelli.

„Ísland sendi okkur í umspilið en þetta er önnur keppni núna. Við erum komnir áfram en þeir eru að berjast fyrir lífi sínu. Við ætlum að vinna og það væri gaman að ná fram hefndum. Tapið síðast var sárt,“ sagði þjálfari Króata, Zlatko Dalic, á blaðamannafundi Króata nú síðdegis.

„Við vitum allt um Ísland og þeir vita allt um okkur eftir leiki okkar síðustu ár. Það eru engin leyndarmál. Við vitum að við verðum að verjast löngu sendingunum þeirra sem og föstu leikatriðunum. Þar eru þeir mjög sterkir. Við berum virðingu fyrir íslenska liðinu sem er gott enda varð það í efsta sæti okkar riðils í undankeppninni.“

Dalic var talsvert spurður út í væl Argentínumanna yfir því að hann ætlaði sér að gera miklar breytingar á liðinu þar sem Króatar eru komnir áfram.

„Við undirbúum okkur alltaf eins og ætlum alltaf að vinna. Við ætlum að halda toppsætinu sem við höfum unnið fyrir. Mér er alveg sama hvað önnur lið eru að segja. Við hugsum bara um okkur,“ sagði þjálfarinn en hann hefur litlar áhyggjur af því að meirihluti áhorfenda verði á bandi Íslands í leiknum.

„Það héldu allir með Argentínu í síðasta leik og það truflaði okkur ekki neitt. Það vorum við sem enduðum á því að fagna. Við erum með reynslumikla menn sem spila fyrir framan stórar stúkur í hverri viku og láta svona ekki trufla sig.“

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×