Um 90 fíkniefnamál komu upp í tengslum við tónlistarhátíðina Secret Solstice sem haldin var í Laugardalnum um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir að aðallega hafi verið lagt hald á kannabisefni en einnig ætlað amfetamín, kókaín, MDMA og e-töflur.
Við eftirlit á hátíðinni naut lögreglan aðstoðar tveggja fíkniefnaleitarhunda sem reyndust mjög vel.
„Eitthvað var um pústra á hátíðinni, en níu líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu. Eins og vænta mátti var ástand gesta misjafnt og þurfti að fjarlæga einhverja þeirra af svæðinu af þeirri ástæðu. Nokkuð var um kvartanir íbúa í nágrenninu vegna hávaða frá hátíðinni, en tilkynningarnar voru vel á annan tug,“ segir í tilkynningu lögreglunnar vegna Secret Solstice.
