Fótbolti

Þetta króatíska lið getur farið alla leið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kári Árnason stendur vaktina í vörn Íslands.
Kári Árnason stendur vaktina í vörn Íslands. Vísir/Getty
Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins, fór fögrum orðum um næsta andstæðing Íslands, Króatíu, á blaðamannafundi fyrir æfingu landsliðsins í Kabardinka í gær. Íslenska landsliðið ferðaðist til Rostov við Don í gær en Ísland mætir Króötum þar á þriðjudaginn í lokaleik D-riðilsins.

Ísland er ekki lengur með örlögin í eigin höndum fyrir lokaumferðina en króatíska liðið er búið að koma sér upp úr riðlinum og getur því leyft sér að hvíla lykilleikmenn og þá sem eru á hættusvæði vegna spjalda.

Verður þetta fimmta viðureign liðanna á síðustu fimm árum en til þessa hefur Ísland unnið einn leik, Króatía tvo en einum lauk með markalausu jafntefli. Hefur Ísland aðeins skorað eitt mark í leikjunum fjórum en Ísland þarf líklegast að skora einhver mörk á morgun til að halda lífi.

„Við höfum spilað oft gegn þeim á síðustu árum og þekkjum þá vel, þeir eru með frábæran hóp og byrjunarliðið er gríðarlega sterkt. Þeir eru komnir áfram og það er talað um að þeir ætli að hvíla leikmenn en það hefur ekki mikil áhrif á gæðin,“ sagði Kári og hélt áfram:

„Þeir eru með mikil gæði í öllum leikmannahópnum, á bekknum eru menn sem koma úr stórliðum. Þeir munu verða gríðarlega erfiðir andstæðingar þó að einstaklingsgæðin muni kannski aðeins minnka.“

Kári bjóst við því að þeir gætu farið alla leið í úrslitaleikinn og unnið mótið.

„Þeir eru með ógnvænlegt lið á pappírnum, mikið af stórstjörnum sem geta unnið hvaða andstæðing sem er á sínum degi. Ég hef lítið velt því fyrir mér en þeir eiga vissulega möguleika á að vinna mótið,“ sagði Kári. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×