Fótbolti

Keane og Neville hraunuðu yfir Boateng │,,Heldur að hann sé Beckenbauer“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jerome Boateng fær það óþvegið
Jerome Boateng fær það óþvegið vísir/getty
Man Utd goðsagnirnar Roy Keane og Gary Neville fóru mikinn í gagnrýni sinni á Jerome Boateng í leik Þýskalands og Svíþjóðar í F-riðli á laugardag.

Þjóðverjar unnu leikinn með síðustu spyrnu leiksins eftir að hafa lent undir og var staðan í leikhléi 1-0 fyrir Svíþjóð.

Þeir Keane og Neville voru í sjónvarpssetti ITV sjónvarpstöðvarinnar og tóku Jerome Boateng, varnarmann Þjóðverja, sérstaklega fyrir í leikhléi.

„Boateng röltir um völlinn eins og hann sé að spila í bumbubolta (e. Sunday League football). Hann er til skammar. Þeir eiga að taka hann útaf þegar hann lætur svona,“ sagði Keane og Neville bætti í.

„Þetta er hárrétt hjá Roy. Varnarmenn Þýskalands hafa verið djók. Einhverra hluta vegna heldur Boateng að hann sé Franz Beckenbauer. Hann heldur að hann sé maðurinn. Hann spilaði undir stjórn Pep Guardiola og byrjaði að trúa því að hann væri framúrskarandi fótboltamaður."

„Frammistaða hans í þessum fyrri hálfleik er algjört djók. Hann hefur miklar ranghugmyndir og lítur á sig sem aðalmanninn,“ sagði Neville ennfremur.

Boateng kórónaði leik sinn með því að fá tvö gul spjöld á tíu mínútna kafla í síðari hálfleik og þar með var hann rekinn af velli.

„Þýskaland spilaði betur án hans,“ sagði Keane í leikslok.

Þess má til gamans geta að Boateng hefur verið orðaður við Manchester United í sumar. Nokkuð ljóst er að ef af þeim félagaskiptum verður bíður Boateng verðugt verkefni að vinna tvo af dáðustu leikmönnum sögunnar á Old Trafford á sitt band.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×