Fótbolti

Sætti kynþáttahatri eftir dýrkeypt brot gegn Þjóðverjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Durmaz er sonur foreldra sem fluttu til Svíþjóðar frá Tyrklandi.
Durmaz er sonur foreldra sem fluttu til Svíþjóðar frá Tyrklandi. Vísir/EPA
Sænski landsliðsmaðurinn Jimmy Durmaz var fórnarlamb kynþáttahaturs og hótana á samfélagsmiðlum eftir að hann gaf aukaspyrnu sem Þjóðverjar skoruðu sigurmark sitt úr á lokamínútum leiks þeirra á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gærkvöldi.

Toni Kroos braut hjörtu Svía með sigurmarki eftir aukaspyrnu þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma. Fram að því var útlit fyrir að Svíar næðu óvæntu stigi gegn heimsmeisturum Þjóðverja og kæmu sér í kjörstöðu í F-riðli.

Það var brot Durmaz rétt fyrir utan vítateig Svía sem leiddi til aukaspyrnunnar. Reuters-fréttastofan segir að hatursskilaboð hafi byrjað að flæða yfir Instagram-síðu Durmaz nærri því um leið og boltinn hafnaði í netinu.

Durmaz er af assýrískum ættum en fjölskylda hans fluttist til Svíþjóðar frá Tyrklandi. Hann gerði sjálfur lítið úr níðinu sem hann varð fyrir.

„Þetta er ekki neitt sem ég læt á mig fá. Ég er hér fullur stolts og kem fram fyrir hönd þjóðar minnar,“ sagði hann eftir leikinn.

John Guidetti, félagi Durmaz úr landsliðinu, lofaði framlag hans í leiknum.

„Hann hljóp og barðist allan leikinn, þetta er óheppni, það er forheimska að ausa yfir hann hatri fyrir það,“ sagði Guidetti við fréttamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×